Erlent

Mun ekki lengur fara með utan­ríkis­málin vegna um­deildra um­mæla

Atli Ísleifsson skrifar
Pele Broberg verður ekki lengur ráðherra utanríkis- og loftslagsmála í landsstjórn Grænlands.
Pele Broberg verður ekki lengur ráðherra utanríkis- og loftslagsmála í landsstjórn Grænlands. EPA

Pele Broberg, ráðherra utanríkismála í grænlensku landsstjórninni, mun ekki lengur fara með málefni utanríkismála í landsstjórninni í kjölfar ummæla sem hann lét falla í blaðaviðtali um þarsíðustu helgi.

Broberg viðraði í viðtali við Berlingske skoðanir sínar um að Grænlendingar sem væru ekki af inúítaættum, ættu ekki að fá að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Grænlands frá Danmörku, komi til slíkrar.

Grænlenskir fjölmiðlar greindu frá vendingunum í gær. Í viðtalinu sagði Broberg ennfremur að hann vilji heldur ekki notast við orðið „rigsfællesskab“ sem hefur verið notað um ríkjasamband Danmerkur og Grænlands. 

Í hans huga væri ekki um „samband“ (d. fællesskab) að ræða, heldur frekar drottinvald Danmerkur.

Múte B. Egede, forsætisráðherra eða formaður landsstjórnar Grænlands, mun taka við skyldum ráðherra utanríkismála af Broberg. Broberg mun sömuleiðis ekki lengur vera með málefni loftslagsmála á sinni könnu. Hann verður þó áfram viðskipta- og atvinnumálaráðherra landsstjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×