Sarkozy var sakaður um að eyða tæplega tvöfalt meira fé í kosningabaráttu sína árið 2012 en lög leyfa. Hann tapaði kosningunum fyrir Francois Hollande, frambjóðanda sósíalista.
Fyrrverandi forsetinn er sagður hafa vitað að hann væri nálægt lögbundnu hámarki um kostnað forsetaframboðs. Hann hafi hunsað ábendingar endurskoðenda sinna og skipulagt stóra kosningafundi, að sögn AP-fréttastofunnar.
Sarkozy neitaði sök og hélt því fram að hann hafi ekki ætlað sér nein svik. Þá hafi hann haft fólk í vinnu til að stýra framboðinu og því væri ekki hægt að draga hann til ábyrgðar fyrir brotin.
Þrettán aðrir eru ákærðir í málinu, þar á meðal félagar Sarkozy úr Lýðveldisflokknum, endurskoðendur og yfirmenn almannatengslastofu sem skipulagði kosningafundi. Þeir eru ákærðir fyrir falsaðir, trúnaðarbrot, fjársvik og aðild að brotum á kosningalögum.
Sumir þeirra hafa viðurkennt að hafa falsað reikninga til að fela framúrkeyrsluna.
Áður var Sarkozy dæmdur fyrir spillingu í öðru dómsmáli í mars. Hann hlaut ársfangelsisdóm en áfrýjaði honum. Gengur Sarkozy laus í millitíðinni.