Fótbolti

Afgreiddi íslenska landsliðið í maí en óttaðist um líf sitt í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hirving Lozano liggur blóðugur í grasinu.
Hirving Lozano liggur blóðugur í grasinu. Getty/Tom Pennington

Mexíkóski knattspyrnumaðurinn Hirving Lozano afgreiddi íslenska landsliðið með tveimur mörkum í vináttulandsleik þjóðanna í lok maí síðastliðnum. Rúmum mánuði síðar lenti hann í slæmu samstuði í öðrum landsleik með Mexíkó.

Hirving "Chucky" Lozano er stjörnuleikmaður hjá ítalska félaginu Napoli sem og með mexíkóska landsliðinu þar sem hann hefur skorað fjórtán mörk.

Lozano ætlaði sér að fara mikinn í Gullbikarnum í sumar en entist bara í einn leik. Lozano meiddist á auga í fyrsta leik mótsins sem var markalaust jafntefli á móti Trínidad og Tógbagó 11. júlí síðastliðinn.

Lozano var fluttur á sjúkrahús og missti í framhaldi af restinni af mótinu. Nú hefur hann sagt meira frá því sem gekk á.

„Margir læknar sögðu við mig að ég hefði getað dáið og maður verður mjög hræddur við að heyra slíkt enda er ég tveggja barna faðir og eiginmaður. Þetta var mikið áfall fyrir mig og fékk mann til að huga um ýmsa hluti,“ sagði Hirving Lozano við ESPN.

„Þegar þú átt orðið börn þá snýst þetta meira um það hvað verður um þau,“ sagði Lozano.

Læknalið Mexíkó mætti strax inn á völlinn til að huga að honum og hann fékk kraga og var fluttur af velli á sjúkrabörum. Hann fékk stóran skurð fyrir ofan augað og var fluttur á sjúkrahús.

„Þetta voru erfið meiðsli en sem betur fer varð skaðinn ekki meiri. Hefði ég fengið höggið aðeins lengra til vinstri eða hægri þá hefði ég annað hvort getað lamast eða misst annað augað. Ég er með ör,“ sagði Lozano og hélt áfram:

„Það voru flóknar tilfinningar sem fóru um mig á þessum tíma. Ég var hræddur en eiginkonan mína var þarna með mér til að styðja við bakið á mér,“ sagði Lozano.

Lozano hefur spilað með Napoli frá upphafi tímabils og verður í landsliðshópi Mexíkó fyrir leiki á móti Hondúras og El Salvador í undankeppni HM í komandi glugga.

Annar landsliðsmaður Mexíkó fékk líka slæmt höfuðhögg í leik en það er Raul Jimenez hjá Wolves. Jimenez höfuðkúpubrotnaði í leik á móti Arsenal í nóvember í fyrra en er kominn aftur af stað og skoraði um síðustu helgi. Lozano fagnar því að sjá landliðsfélaga sinn aftur inn á vellinum.

„Ég er mjög ánægður með að sjá hann koma til baka því meiðsli hans voru enn flóknari. Þetta var erfitt en það mikilvægasta er heilsan. Ég veit að hann skiptir landsliðið og hópinn miklu máli. Hann er frábær leikmaður og frábær manneskja,“ sagði Lozano.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×