Erlent

Óttast að þurfa að farga svínum í massavís í Bretlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Bresk svínabú eru að fyllast og svínin að verða of stór.
Bresk svínabú eru að fyllast og svínin að verða of stór. EPA/NIGEL RODDIS

Breskir svínabændur óttast að þurfa að farga þurfi stórum hluta svína Bretlands vegna landlægs skorts á slátrurum. Svínabú eru að fyllast víða um land og sláturhús skortir starfsmenn til að hafa undan sendingum frá búunum.

Í frétt Guardian segir að fari allt á versta veg þurfi að farga gífurlega mörgum svínum. Það felur í sér að drepa dýrin og brenna þau eða farga á annan veg. Svínin myndu þá ekki rata á matarborð Breta heldur fara til spillis.

Í frétt Reuters segir að biðlistinn fyrir slátrun væri kominn í allt að 150 þúsund svín í Bretlandi og hann lengist hratt.

Rob Mutimer, yfirmaður samtaka svínabænda í Bretlandi, sagði fréttaveitunni að samtökin hafi farið á leit við ríkisstjórn Bretlands að gefa sláturhúsum undanþágu gagnvart innflytjendalögum svo hægt væri að flytja inn fleiri slátrara tímabundið. Viðræður hefðu ekki skilað árangri.

Til lengri tíma segir Mutimer þó þörf á fleiri breskum slátrurum og að auka þurfi sjálfvirkni í sláturhúsum svo þau verði ekki eins háð erlendu vinnuafli. Til þess er verið að hækka laun um fimmtán prósent og auka fjárfestingar í sjálfvirkni. Það eru þó lausnir til lengri tíma en ekki til skamms.

Samhliða því að svínabú eru að fyllast hefur fæði fyrir svín hækkað mjög í verði. Mutimer segir að á sínu býli hafi verðið hækkað um 35 prósent.


Tengdar fréttir

Vilja einangra 29 milljónir húsa á næstu árum

Allt að þrjátíu hafa verið handteknir á síðustu vikum vegna mótmæla í Bretlandi. Samtökin Einangrum Bretland standa fyrir mótmælunum en helsta baráttumál þeirra er að einangra 29 milljón hús á næstu níu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×