Forsetinn þáverandi var bannaður á Twitter og öðrum samfélagsmiðlum fyrir að hvetja til ofbeldis, eftir að stuðningsmenn hans reyndu að ryðja sér leið inn í þinghúsið. Markmið þeirra var að stöðva formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna í fyrra, sem Trump tapaði og Joe Biden vann.
Trump höfðaði mál gegn Twitter, Facebook og Google í sumar. Þá sögðu lögmenn forsetans að samfélagsmiðlafyrirtæki væru óvinveitt bandarískum íhaldsmönnum.
Sjá einnig: Trump fer í mál við samfélagsmiðlarisa
Lögmenn hans höfðuðu svo nýtt mál gegn Twitter í gær. Í dómsskjölum segir að starfsmenn samfélagsmiðlafyrirtækisins hafi lokað á forsetann vegna þrýstings frá pólitískum andstæðingum hans, samkvæmt frétt Washington Post.

Í dómsskjölunum segja lögmenn Trumps að Twitter veiti Talibönum meira tjáningarfrelsi en forsetanum fyrrverandi.
Lögmenn Trumps saka Twitter um ritskoðun og segja forsvarsmenn fyrirtækisins hafa of mikil áhrif á pólitíska umræðu í Bandaríkjunum. Það sé hættulegt lýðræðinu.
Í kjölfar þess að Trump tapaði aðgangi sínum að samfélagsmiðlum reyndi hann að stofna eins manns samfélagsmiðil, þar sem stuðningsmenn hans áttu að geta líkað við og dreift stuttum skilaboðum hans til heimsins.
Sá samfélagsmiðill, sem var í raun bloggsíða, naut ekki mikilli vinsælda og var fljótt lokað.
Sjá einnig: Trump reiður yfir litlum vinsældum og lokar bloggsíðunni
Áður en hann var rekinn af Twitter var Trump með rúmlega 88 milljónir fylgjenda og notaði hann samfélagsmiðilinn til að tjá sig um hin ýmsu málefni og jafnvel til þess að reka fólk úr ríkisstjórn sinni.