Árið 2017 skaut Édouard Francis Guiral í eyrað með loftriffli með þeim afleiðingum að hann missti heyrn á öðru eyranu. Á þeim tíma var Édouard á láni hjá Toulouse frá Paris Saint-Germain.
Édouard fékk fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm og var gert að greiða Guiral bætur sem hann gerði ekki fyrr en nú. Edouard greiddi Guiral rúmlega 3,5 milljónir króna í skaðabætur.
Lögmenn Édouards héldu því fram að engar haldbærar sannanir væru fyrir því að hann hefði hleypt af en dómstóll komst að annarri niðurstöðu.
„Þann 11. febrúar 2017 gekk í rólegheitum í Busca hverfinu í Toulouse þegar bíll var stöðvaður. Bílstjórinn skrúfaði niður rúðuna, ég hélt að hann vantaði einhverjar upplýsingar. Ég setti eyrað upp að rúðunni og svo heyrði ég hvell. Ég féll í jörðina og það blæddi úr eyranu á mér. Hann leit á mig án þess að segja neitt og ók í burtu,“ sagði Guiral er hann var beðinn um að lýsa atvikinu. Auk þess að vera heyrnarlaus á öðru eyranu er Guiral með skert jafnvægi eftir að Édouard skaut hann.
Édouard trassaði að borga sektina og það var ekki fyrr en Palace blandaði sér í málið að hann gerði það loksins.
Palace keypti Édouard frá Celtic á átján milljónir punda á lokadegi félagaskiptagluggans. Hann skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik fyrir Palace, í 3-0 sigri á Tottenham, 11. september.