Fótbolti

Byrjunar­lið Ís­lands: Elías Rafn byrjar í sínum fyrsta A-lands­leik, Birkir Már heldur sæti sínu og Jón Dagur fær loks sénsinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elías Rafn Ólafsson varð mark Íslands gegn Grikklandi í undankeppni EM U21-landsliða í síðasta mánuði. Nú ver hann mark íslenska A-landsliðsins.
Elías Rafn Ólafsson varð mark Íslands gegn Grikklandi í undankeppni EM U21-landsliða í síðasta mánuði. Nú ver hann mark íslenska A-landsliðsins. VÍSIR/BÁRA

Arnar Þór Viðarsson hefur tilkynnt sitt fyrsta byrjunarlið sem þjálfari A-landsliðs karla í fótbolta. Ísland mætir Armeníu í undankeppni HM kl. 19.45 á Laugardalsvelli. 

Athygli vekur að Elías Rafn Ólafsson, markvörður Midtjylland í Danmörku, fær traustið en Rúnar Alex Rúnarsson stóð vaktina í tveimur af þremur leikjum liðsins í síðasta landsliðsglugga. 

Elías Rafn hefur verið hreint út sagt frábær undanfarnar vikur með Midtjylland og er verðlaunaður fyrir það í kvöld. 

Í bakvörðunum eru tveir af traustari landsliðsmönnum síðari ára. Birkir Már Sævarsson er hægra megin og Ari Freyr Skúlason vinstra megin. Verður þetta 102. landsleikurinns sem Birkir Már hefur spilað á meðan Ari Freyr er að leika sinn 82. landsleik. 

Í hjarta varnarinnar eru tveir leikmenn sem eru öllu reynslu minni, þeir Hjörtur Hermannsson og Brynjar Ingi Bjarnason. Þeir virðast vera nýjasta miðvarðarpar íslenska landsliðsins og fá traustið enn á ný. 

Á miðjunni er smá bland í poka. Birkir Bjarnason ber fyrirliðabandið og er reynslumestur þeirra þriggja sem byrja í kvöld. Guðlaugur Victor Pálsson er einnig þarna til að gefa ákveðna vigt, reynslu og gæði. Svo fær Þórir Jóhann Helgason tækifærið en hann stóð sig með prýði í síðasta verkefni. Reikna má með að hann verði sókndjarfastur þeirra þriggja. 

Þá fær Jón Dagur Þorsteinsson loks tækifæri í byrjunarliðinu. Hann og Albert Guðmundsson eru á öðrum hvorum vængnum nema þá að Arnar Þór hafi skipt úr 4-3-3 leikkerfi sínu og ákveðið að spila 4-2-3-1 í kvöld, þá gæti Albert verið í holunni og Þórir Jóhann á hægri vængnum. 

Að lokum er svo Viðar Örn Kjartansson fremstur.

Byrjunarliðið í kvöld er þannig skipað:

Markmaður: Elías Rafn Ólafsson.

Varnarmenn: Birkir Már, Hjörtur, Brynjar Ingi og Ari Freyr.

Miðjumenn: Guðlaugur Victor, Birkir Bjarnason (fyrirliði) og Þórir Jóhann.

Vængmenn: Jón Dagur og Albert Guðmundsson.

Sóknarmaður: Viðar Örn.

Vísir/Jónína Guðbjörg
Vísir/Jónína Guðbjörg
Vísir/Jónína Guðbjörg
Vísir/Jónína Guðbjörg
Vísir/Jónína Guðbjörg
Vísir/Jónína Guðbjörg
Vísir/Jónína Guðbjörg
Vísir/Jónína Guðbjörg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×