„Þetta eru mikil tímamót og allir gjörsamlega að sturlast af spenningi. Ég er svo heppin að fá að leikstýra þessu verki og þessum glæsilega hóp, sem er einstaklega hæfileikaríkur og metnaðarfullur og ég held að árangurinn verði eftir því,“ segir Karl Ágúst Úlfsson, sem leikstýrir verkinu.
„Andi Rúnars svífur hér yfir vötunum og það er mikill heiður að fá að heiðra minningu Rúnars þessarar hetju æsku minnar,“ bætir Karl Ágúst við.
Dóttir hans, Brynhildur er danshöfundur sýningarinnar.
„Það eru frábærar dansarar í sýningunni, ég eiginlega átti ekki von á því að þetta yrði svona flott, en það kom svo fljótt í ljós að það væru geggjaðir dansarar hér hjá leikfélaginu,“ segir Brynhildur.

Söngleikurinn verður frumsýndur föstudagskvöldið 22. október. Eins og flestir vita var Rúnar frábær tónlistarmaður og meðlimur í vinsælustu hljómsveitum landsins á sínum tíma. Hann samdi og gaf út óteljandi lög og rak útgáfufyrirtækið Geimstein sem enn er starfandi í Keflavík.
Brynja Ýr Júlíusdóttir og Guðlaugur Ómar Guðmundsson eru handritshöfundar verksins.
„Rúnar hefur náttúrulega mikla tenginu við bæjarfélagið að sjálfsögðu. Hann er líka afi minn þannig að ég vildi heiðra hans minningu,“ segir Brynja Ýr.
En um hvað fjallar verkið?
„Um ástir og líf ungra tónlistarmanna , sem eru að reyna að slá í gegn í mjög stuttu máli,“ segir Guðlaugur Ómar.
Verkið hefur að geyma lög og texta eftir Rúnar Júlíusson, Gunnar Þórðarson, Bubba Mortens og fleiri snillinga. Lögin eru þekktar perlur sem allir kunna og textinn sem tengir lögin snilldin ein hjá þessu unga fólki, sem tekur þátt í verkinu.
