Dómur í málinu féll á morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem Angjelin Sterkaj var dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir að bana Armando Beqirai fyrir utan heimili hans í Rauðagerði í febrúar síðastliðnum. Claudia Sofia Coelho Carvalho, Murat Selivrada og Shpetim Qerimi voru sýknuð af kröfum ákæruvaldsins um hlutdeild í verknaðinum.
Lögmaður gagnrýndi skýrsluna
Dómurinn hefur verið birtur á vef héraðsdóms en í niðurlagi hans fjallar dómari málsins um skýrslu sem ber heitið samantekt rannsóknardeildar um rannsókn málsins.
Við aðalmeðferð málsins gagnrýndi Geir Gestsson, lögmaður Murat Selivrada, harðlega umrædda skýrslu. Gerði hann skýrsluna að umtalsefni í viðtali við fréttastofu eftir að dómur var kveðinn upp í morgun.
„Það eina sem lá fyrir í málinu um hans þátt í þessu var skýrsla frá lögreglu og þar var reynt að ýkja þátt hans í málinu og skýrslan virtist ekki byggja á neinum frumgögnum sem sönnun um sekt hans,“ sagði Geir meðal annars.
Í niðurlagi dómi héraðsdóms segir Guðjón, dómari málsins, um skýrsluna að hvorki hafi fengist svör né skýringar á vinnu við gerð skýrslunnar, þess utan að hún hafi verð gerð á grundvelli 1. málsgreinar 56. greinar laga um meðferð sakamála þar sem stendur eftirfarandi:
Lögregla tekur saman skýrslu um rannsókn sína í hverju máli um sig þar sem getið skal einstakra rannsóknaraðgerða og niðurstöðu þeirra. Eftir því sem við á skal þar meðal annars koma fram það sem sakborningur og vitni bera við skýrslutöku, sbr. 64. og 65. gr., athugun lögreglu sjálfrar og niðurstaða skoðunar og rannsóknar sérfróðra manna.
Segir í dómi héraðsdóms að það sé meginregla sakamálalaga að rannsakendum og ákærendum sé skylt að gæta hlutlægni og að vinna að því að hið sanna komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Taka beri mið af þessari grundvallarreglu við gerð skýrslu samkvæmt fyrrgreindri lagagrein.
„Undir almeðferð málsins fengust hvorki svör né skýringar á vinnu við gerð skýrslunnar. Að mati dómsins er skýrsla þessi ekki í samræmi við ákvæði 1. mgr.56. gr. sml. Í skýrslunni er m.a. að finna kafla sem ber heitið kenningar lögreglu og niðurlag. Þar er sett fram kenning, óháð framburði sakborninga, eins og segir. Þá er í niðurlaginu umfjöllun um skilyrði samverknaðar. Að mati dómsins hefur lögreglan við gerð skýrslunnar ekki gætt meginreglunnar um hlutlægnisskyldu lögreglunnar svo sem henni bar að gera og er það ámælisvert,“ segir í dómi héraðsdóms.