Körfubolti

Fjár­festing Kobe Bry­ant skilar fjöl­skyldu hans 52 milljörðum króna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant spilaði allan sinn NBA feril með liði Los Angeles Lakers og varð fimm sinnum NBA-meistari með liðinu.
Kobe Bryant spilaði allan sinn NBA feril með liði Los Angeles Lakers og varð fimm sinnum NBA-meistari með liðinu. Getty

Kobe heitinn Bryant er enn að skila dánarbúinu milljörðum króna og gærdagurinn er enn eitt dæmið um góða ákvörðun hjá einum af besta körfuboltamanni allra tíma.

Kobe veðjaði á sínum tíma á lítt þekktan íþróttadrykk sem ætlaði í metnaðarfulla samkeppni við stórveldið Gatorade. Fjölskylda hans er heldur betur að njóta góðs af því um ókomna framtíð.

Bryant fjárfesti í íþróttadrykkjarframleiðandanum BodyArmor fyrir sex milljónir dollara árið 2014. Í gær klukkan nákvæmlega 8.24, til minningar um Kobe, þá keypti Coca-Cola 85 prósent hlut í BodyArmor fyrir 5,6 milljarða dollara. 8 og 24 voru númerin sem Kobe Bryant spilaði í á sínum magnaða NBA ferli.

Kobe keypti á sínum tíma tíu prósent hlut í BodyArmor og það þýðir að 780 milljóna fjárfesting Kobe fyrir sjö árum skilaði fjölskyldu hans 400 milljónum dollara við þessa sölu eða 52 milljörðum króna. Wall Street Journal sagði frá.

„Ef ekki hefði verið fyrir framsýni og trú Kobe Bryant þá hefði BodyArmor aldrei náð þeim árangri sem það náði,“ sagði Mike Repole, stofnandi fyrirtækisins.

Coke hafði áður keypt fimmtán prósent hlut í fyrirtækinu árið 2018 en á nú alla hlutina eftir kaupin í gær. Þetta er það mesta sem fyrirtækið hefur borgað fyrir annan drykkjarvöruframleiðanda.

Coke hafði keypt Glaceau vatnsframleiðandann fyrir 4,1 milljarða dollara árið 2007 og Costa Coffee kaffiframleiðandann fyrir 5,1 milljarða árið 2018.

Kobe Bryant lést í þyrluslysi í Kaliforníu 26. janúar 2020 ásamt þrettán ára dóttur sinni og sjö öðrum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×