Hinn maðurinn var fluttur á bráðamóttöku til aðhlynningar um klukkan 22.30 en í tilkynningu lögreglu kemur ekki fram hvers vegna. Síðar um nóttina voru aftur höfð afskipti af manninum og var hann þá fluttur á lögreglustöð þar sem hann gat ekki gefið upp dvalarstað.
Rétt fyrir klukkan 22 var tilkynnt um bílveltu í Garðabæ. Ökumaðurinn komst sjálfur út en farþeginn sat fastur. Sjúkra- og tækjabifreið slökkviliðsins var send á vettvang og tókst að ná farþeganum út.
Bæði ökumaður og farþegi voru fluttir á bráðamóttöku en ekki er vitað um meiðsl. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Fyrr um kvöldið var tilkynnt um slys í hesthúsahverfi í Garðabæ en þar hafði kona fallið af baki þegar hún var að temja hest. Var hún með verk á höfði og í kviði og var flutt á bráðamóttöku.
Þá var ekið á dreng á rafmagnshlaupahjóli í Kópavogi og var hann fluttur á bráðamóttöku. Samkvæmt forráðamanni drengsins var hann marinn og aumur en ekki brotinn.
Þrír voru einnig fluttir á bráðamóttöku rétt fyrir miðnætti eftir að ökumaður missti stjórn á bifreið sinni í hálku og rann á ljósastaur. Flytja þurfti bifreiðina af vettvangi en ekki er vitað um meiðsl á fólki.