Körfubolti

NBA deildin hefur rannsókn á eiganda Phoenix Suns

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Robert Sarver fagnar því að komast í lokaúrslitin í vor
Robert Sarver fagnar því að komast í lokaúrslitin í vor EPA-EFE/ETIENNE LAURENT

NBA deildin hefur ákveðið að hefja formlega rannsókn á Robert Sarver, eiganda Phoenix Suns, sem hefur verið í sviðsljósinu undanfarnar vikur eftir að kvissaðist út að það væri á leiðinni fréttaskýring um hans stjórnunarhætti. Nú hefur fréttin verið birt hjá bandaríska fjölmiðlarisanum ESPN.

Robert Sarver, eigandi Phoenix Suns, hefur í mörg ár verið gagnrýndur af þeim sem fjalla um NBA deildina. Þó oftast fyrir að vera of mikið með puttana í ákvörðunum tengdum körfuboltanum sjálfum. Nú hefur hins vegar birst fréttaskýring hjá ESPN, skrifuð af blaðamanninum Baxter Holmes, sem málar upp ansi dökka mynd af Sarver.

Fyrir umfjöllun ESPN þá hafði blaðamaðurinn Holmes rætt við meira en sjötíu einstaklinga sem tengjast Phoenix liðinu. Sarver er meðal annars ásakaður um kynþáttafordóma. Earl Watson, fyrrum þjálfari liðsins, á að hafa skammað Sarver fyrir að hafa notað n-orðið svokallaða ítrekað en Sarver ekki viljað láta af framferðinu.

Þá er haft eftir minnihlutaeiganda hjá liðinu að Sarver hafi gerst sekur um mikla karlrembu og jafnvel kynferðislega áreitni margoft á þeim 17 árum sem hann hefur átt liðið, en Sarver keypti liðið árið 2004. Atvikin eru margfalt fleiri en NBA deildin segist ætla að rannsaka málið. Forráðamenn Phoenix hafna öllum þessum ásökunum og segja að allt eigi þetta sér eðlilegar skýringar.

Ef allt fer á versta veg fyrir Sarver þá gæti NBA deildin skipað honum að selja liðið eins og deildin gerði árið 2012 þegar Donald Sterling, þáverandi eigandi Los Angeles Clippers, var neyddur til þess að selja liðið í kjölfar hneykslismáls sem tengdist kynþáttafordómum. Þar var um að ræða hljóðupptökur en það gæti reynst erfiðara að finna sönnunargögn gegn Sarver.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×