Fótbolti

Segja Mikael ekki hafa gefið kost á sér í lands­liðið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikael í leik gegn Danmörku í Þjóðadeildinni.
Mikael í leik gegn Danmörku í Þjóðadeildinni. Vísir/Vilhelm

Mikael Neville Anderson, leikmaður AGF í dönsku úrvalsdeildinni var ekki valinn í íslenska landsliðið sem mætir Rúmeníu og Norður-Makedóníu á næstu dögum. Það er þó góð og gild ástæða fyrir því.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net ákvað Mikael ekki að gefa kost á sér að þessu sinni þar sem hann hefur verið að glíma við hnémeiðsli. Hefur hann verið að spila lítillega meiddur og vildi því nýta landsleikjahléið til að ná sér góðum.

Hinn 23 ára gamli Mikael hefur verið að finna sig vel í treyju AGF og skoraði til að mynda glæsilegt mark í 3-0 sigri liðsins á hans fyrrum félögum í Midtjylland. 

Eftir slæma byrjun á tímabilinu er AGF hægt og rólega að rétta úr kútnum. Liðið er sem stendur með 19 stig að loknum 15 leikjum.

Mikael á að baki 11 A-landsleiki og hefur skorað í þeim eitt mark. Hans síðasti leikur var í 1-1 jafnteflinu við Armeníu 8. október síðastliðinn en hann kom þá af bekknum er níu mínútur lifðu leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×