Þetta kemur fram í svari Guðbrands Arnar Arnarsonar, verkefnastjóra aðgerðamála hjá Landsbjörgu, við fyrirspurn fréttastofu um málið.
Fram kemur í svari Guðbrands að nýtt skráningarkerfi hafi verið tekið í notkun hjá Landsbjörgu árið 2014. Síðan þá hafa borist ellefu útköll í flokki F1 og F2, tveimur alvarlegustu flokkum björgunarsveita, sem beint megi rekja til aðstæðna í Reynisfjöru frá árinu 2014.

Fjögur útkallanna hafi verið vegna drukknana og sjö vegna annarra slysa, þar á meðal eftir að fólk kom sér í sjálfheldu vegna sjávarfalla. Við þetta bætist fleiri útköll af svæðinu sem ekki tengist aðstæðum í fjörunni beint, til dæmis bílar sem séu fastir og týnt fólk, þar sem útgangspunktur sé annar en fjaran sjálf.
Ótækt að úrbætur strandi á landeigendum
Ung kínversk kona lést í Reynisfjöru í fyrradag eftir að hún barst á haf út með öldu. Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörgu gagnrýndi landeigendur við Reynisfjöru í kjölfarið og sagði ótækt að ekki hefði enn verið hægt að koma upp nauðsynlegum öryggisbúnaði við fjöruna. Málið, að hans sögn, strandi á landeigendum.
Landeigendur eru síður en svo sáttir með þessa gagnrýni Jónasar og sagði Halla Ólafsdóttir, einn landeigenda og rekstrarstjóri Svörtu fjörunnar í Reynisfjöru, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að þetta væri ekki rétt hjá Jónasi.
„Við erum boðin og búin að fara í samstarf og viljum að sjálfsögðu koma að því borði, hvernig þetta er framkvæmt og hvernig hlutirnir eru,“ sagði Halla.
Fólk geri það sem það vilji og láti ekkert stoppa sig
Landeigendur hafi til að mynda gert tilraunir til að koma upp ljósabúnaði á fjörunni, sem alltaf yrði logandi. Búnaðurinn hefði verið hannaður en framkvæmdin strandað hjá einhverri stofnuninni.
Tók Halla það jafnframt fram að ómögulegt væri að stjórna því hvað fólk gerði, vildi fólk komast að fjörunni eða stuðlaklettunum frægu, fyndi fólk leið til að komast þangað.
„Það kom bara á daginn eftir að ungi Kínverjinn fór 2016 að þá voru hérna tveir og þrír uppábúnir lögreglumenn að reyna að halda fólki frá. Ef þeir sneru sér í austur þá fór fólk vestan megin við þá en ef þeir sneru sér í vestur fór fólk austanmegin við þá. Fólk fer þangað sem það ætlar sér,“ segir Halla.