Á vef Veðurstofunnar segir að það verði lengst af þurrt á Norðausturlandi, en þó megi búast við dálítilli vætu þar um tíma eftir hádegi. Hiti verður á bilinu eitt til sjö stig og mildast suðaustantil.
„Víða fremur hægur vindur og él á morgun, en þurrt norðaustan- og austanlands þar til síðdegis. Vindurinn gæti þó orðið heldur meiri á suðvesturlandi, en spár eru ekki sammála um hvort vestan vindstrengur nái þar inn. Hiti um og undir frostmarki.
Annað kvöld snýst svo í norðlæga átt með snjókomu eða éljum á norðanverðu landinu, en þá styttir upp sunnan heiða,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Suðvestlæg eða breytileg átt 5-13 m/s og él, en hægari vindur og úrkomulítið NA og A-lands. Gengur í norðan 8-15 um kvöldið með snjókomu eða éljum á N-verðu landinu, en þurrt syðra. Hiti um og undir frostmarki.
Á miðvikudag: Norðaustlæg eða breytileg átt 3-10 og bjartviðri S- og V-lands. Norðvestan 13-20 A-til á landinu og auk þess éljagangur NA-lands, en styttir upp og lægir þar seinnipartinn. Frost 1 til 7 stig. Austan 5-10 um kvöldið og þykknar upp um landið S-vert.
Á fimmtudag: Austlæg átt, víða á bilinu 5-10 m/s. Rigning eða slydda með köflum S-lands og hiti 1 til 5 stig, en þurrt að kalla um landið N-vert og frost 1 til 8 stig. Bætir í vind um kvöldið með snjókomu eða slyddu víða um land.
Á föstudag: Norðlæg eða breytileg átt 5-10 og snjókoma eða él, en styttir upp sunnan heiða. Víða vægt frost, en frostlaust við suðurströndina.
Á laugardag: Snýst í vestlæga átt með þurru og svölu veðri, en þykknar upp og hlýnar V-til um kvöldið.
Á sunnudag: Suðvestlæg átt og rigning eða slydda með köflum. Hlýnandi veður.