Vegarkaflinn liggur upp úr Vatnsfirði um svokallaðan Pennusneiðing í Penningsdal og að gatnamótum Bíldudalsvegar í Helluskarði. Íslenskir aðalverktakar hófu vegagerðina um miðjan október í fyrra og var vonast til að kaflinn yrði tilbúinn með bundnu slitlagi fyrir veturinn.

Klæðningarflokkur frá Borgarverki, sem áður hafði lagt bundið slitlag á nýjan kafla í Arnarfirði, beið með tækjabúnað sinn á Brjánslæk eftir því að veður leyfði útlögn slitlagsins á Pennusneiðing. Héldu menn lengi í vonina um nokkurra daga góðan veðurkafla allt þar til snjóaði yfir vinnusvæðið í gær.
Þótt markmiðið um klæðningu hafi ekki náðst verður hluti vegarins engu að síður opnaður umferð en án slitlags. Þar skiptir mestu að búið er að setja upp vegrið.

„Þetta verður opnað mjög fljótlega í næstu viku. Harðpakkað burðarlag er komið á,“ segir Bjarki Laxdal, verkstjóri ÍAV á Dynjandisheiði.
Verktakinn er að leggja samtals 8,2 kílómetra kafla, þar af eru um 600 metrar á Bíldudalsvegi, en þar færast gatnamótin. Kaflinn sem nú verður opnaður er um Pennusneiðing og upp í Þverdal.
„Það verður opnaður kaflinn sem átti að klæða, 3,8 kílómetrar. Þar fyrir ofan er umferðin á nýja veginum að stærstum hluta upp að Norðdalsbrú, en að vísu er sá kafli án styrktarlags og burðalags. Samt breiður og góður vegur.“

Starfsmenn ÍAV halda áfram vegavinnu á svæðinu fram til áramóta og eitthvað fram í janúar, að sögn Bjarka, en þó mun fækka í vinnuflokknum. Slitlagið verður svo lagt á allan kaflann í byrjun næsta sumars.
„Við fáum rúma átta kílómetra vonandi fyrir lok júní,“ segir Bjarki.
Áður var búið að opna 4,3 kílómetra kafla í Arnarfirði milli Mjólkár og Dynjanda.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá vegagerðinni í september: