Körfubolti

„Sáttur að ná loksins að vinna“

Atli Arason skrifar
Maciek Stanislav Baginski.
Maciek Stanislav Baginski. Vísr/Andri Marinó

Maciej Baginski, leikmaður Njarðvíkur, var ánægður að ná loksins að binda enda á taphrinu Njarðvíkur í Subway deildinni eftir 5 stiga sigur á Blikum í kvöld, 110-105.

„Þetta var mjög skrítin og erfiður leikur. Flest lið detta inn í þeirra leik einhvern veginn, að reyna að hlaupa með þeim og við gerðum það full lengi í þessum leik. Ég er bara mjög sáttur að ná loksins að vinna eftir þessa þrjá tapleiki,“ sagði Maciej í viðtali við Vísi eftir leik.

Njarðvík tapaði öllum leikhlutunum í kvöld nema þeim þriðja. Í þriðja fjórðung ná heimamenn að taka 15-0 áhlaup á Breiðablik en það var það sem skilaði sigrinum að mati Maciej.

„Við náðum að stoppa þá í þriðja leikhluta. Í þriðja leikhlutanum var miklu meiri orka í okkur og það skóp muninn sem við fórum með inn í fjórða leikhluta,“ svaraði Maciej, aðspurður að því hvað skilaði sigrinum í kvöld. 

Leikurinn í kvöld var jafn og spennandi fram að loka mínútunum en Breiðablik spilar mjög hraðan körfubolta og láta þeir andstæðinga sína hlaupa úr sér lungun til að eltast við þá. Þrátt fyrir mikil hlaup í kvöld þá var Maciej ekkert að karta.

„Mér líður ekki illa. Maður verður þreyttastur í vörn í körfubolta en það var lítið um varnir í kvöld,“ sagði Maciej og hló.

Maciej skilaði 16 stigum, fjórum fráköstum og einni stoðsendingu í kvöld. Hann er að stíga upp úr meiðslum og er ekki alveg orðinn 100% en segist þó allur vera að koma til.

„Hægt og rólega, þetta verður betra og betra með hverjum degi,“ sagði Maciej Baginski, leikmaður Njarðvíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×