Erlent

Öllum Austur­­ríkis­­mönnum gert að halda sig heima í tíu daga og krafa gerð um bólu­setningu

Atli Ísleifsson skrifar
Útgöngubann fyrir þá sem ekki hafa fengið bólusetningu gegn kórónuveirunni tók gildi í Austurríki aðfaranótt mánudagsins síðasta.
Útgöngubann fyrir þá sem ekki hafa fengið bólusetningu gegn kórónuveirunni tók gildi í Austurríki aðfaranótt mánudagsins síðasta. AP

Stjórnvöld í Austurríki hafa ákveðið að loka samfélaginu í tíu daga vegna mikillar útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu. Öllum landsmönnum, bæði bólusettum og óbólusettum, hefur þannig verið gert að halda sig heima í tíu daga, frá og með næsta mánudegi. Þá verði gerð krafa um bólusetningu frá 1. febrúar næstkomandi.

Austurríska blaðið Krone segir frá því að kanslarinn Alexander Schallenberg muni tilkynna um þetta á blaðamannafundi innan skamms, en samkvæmt ákvörðun stjórnvalda verði hægt að framlengja aðgerðirnar um að hámarki tíu daga til viðbótar.

Blaðið segir ennfremur að Schallenberg muni tilkynna að óbólusettir skulu áfram halda sig heima eftir að tuttugu dagarnir eru liðnir. Þá muni hann biðla til bólusettra í landinu að sýna samstöðu.

Fyrr í mánuðinum var útgöngubanni komið á fyrir óbólusetta í Austurríki í tilraun til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar þar í landi. Útgöngubannið hafði áhrif á um tvær milljónir manna en tæplega níu milljónir búa í Austurríki. Aðeins 65 prósent þjóðarinnar er fullbólusett en hlutfallið er með því lægsta í Evrópu.

Uppfært 10:30: Alexander Schallenberg kanslari sagði á fréttamannafundi fyrir hádegi að frá 1. febrúar á næsta ári verði þess krafist að fólk verði búið að bólusetja sig. Erlendir fjölmiðlar segja að ekki sé ljóst hvernig framkvæmdinni verði háttað, en að vinna á þinginu hefist í næstu viku. Austurrískir fjölmiðlar segja hins vegar að fólk sem bólusetji sig ekki gæti átt yfir höfði sér sektir eða fangelsisvist.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Óbólu­­settir í út­­göngu­bann í Austur­­ríki

Stjórnvöld í Austurríki hafa tekið ákvörðun um setja útgöngubann á óbólusetta.  Breytingarnar taka gildi á miðnætti í kvöld og gilda í tíu daga. Brot á útgöngubanninu varðar rúmlega tvö hundruð þúsund króna sekt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×