Bieber er einn nokkurra vel þekktra tónistarmanna, sem mun skemmta gestum Formúlu eitt á fyrsta kappakstrinum, sem haldinn er í Jeddah. Cengiz hefur birt opið bréf, sem stílað er á Bieber, og beðið hann að senda valdamönnum konungsríkisins skilaboð og hætta við framkomuna.

Khashoggi, sem lengi var hávær gagnrýnandi konungsstjórnarinnar, var myrtur hrottalega í sádiarabíska sendiráðinu í Istanbúl í Tyrklandi í oktober 2018. Hann hafði farið í sendiráðið til þess að sækja nauðsynlega pappíra fyrir hjónavíxlu hans og Cengiz. Hann var myrtur og lík hans bútað niður inni í sendiráðinu á meðan Cengiz beið fyrir utan.
„Ekki syngja fyrir morðingja míns heittelskaða Jamals,“ skrifaði Cengiz í bréfinu, sem birtist hjá Washington Post. Hún skrifar í bréfinu að Bieber sé í góðri stöðu til að sýna að hann styðji ekki við stjórnvöld sem komi gagnrýnendum sínum fyrir kattarnef.
Kappaksturinn fer fram í borginni Jeddah þann 5. desember næstkomandi. Fjöldi þekktra tónlistarmanna mun þar stíga á stokk auk Biebers, eins og A$AP Rocky, David Guetta og Jason Derulo.
Cengiz er ekki ein um ákallið. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa hvatt Bieber og hina listamennina um að hætta við framkomuna, sem þau segja tilraun sádiarabískra stjórnvalda til að beina athygli frá mannréttindabrotum þeirra.

Khashoggi, sem var 59 ára gamall þegar hann var myrtur, var eitt sinn einn helsti ráðgjafi sádiarabískra stjórnvalda og náinn konungsfjölskyldunni. Það breyttist hins vegar skyndilega og hann flúði til Bandararíkjanna árið 2017.
Rannsókn bandarísku leyniþjónustunnar á morðinu leiddi í ljós að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hafi fyrirskipað morðið. Hann hefur þó ítrekað neitað allri aðkomu að morðinu.