Annars staðar á landinu byrjar að snjóa seinnipartinn og í kvöld, en þar mun hitinn líklega aldrei komast yfir frostmark.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Frost verður víða núll til fimm stig, en hiti að fimm stigum við suðurströndina.
„Á morgun, þriðjudag hallar vindur sér til norðlægrar áttar, víða 5-10 m/s. Él fyrir norðan og austan en styttir smám saman upp sunnan jökla. Frost um allt land.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Norðaustan 3-10 m/s og víða dálítil snjókoma eða slydda. Norðan 5-13 og él síðdegis, en úrkomulítið SV- og V-lands. Hiti um eða undir frostmarki, en kólnar seinnipartinn.
Á miðvikudag (fullveldisdagurinn): Minnkandi norðanátt og bjart með köflum, en dálítil él á NA- og A-landi. Frost víða 5 til 15 stig, kaldast í innsveitum. Vaxandi suðaustanátt vestast um kvöldið með minnkandi frosti.
Á fimmtudag: Suðaustan 10-18 með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu, einkum S- og V-lands. Hægari suðvestanátt og dregur úr vætu síðdegis. Hlýnandi veður.
Á föstudag: Vestlæg átt og dálítil él, en þurrt A-til. Hiti um eða undir frostmarki.
Á laugardag: Breytileg átt, stöku él og kalt í veðri.
Á sunnudag: Útlit fyrir suðaustlæga átt, bjart og kalt, en þykknar upp og hlánar SV-til síðdegis.