Fótbolti

Lög­reglan þurfti að stíga inn í rifrildi Xavi og Emery

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Xavi ræðir við Pique í leik Barcelona og Villareal um helgina. Í bakgrunn má sjá vel sleikt hár Unai Emery, þjálfara Villareal.
Xavi ræðir við Pique í leik Barcelona og Villareal um helgina. Í bakgrunn má sjá vel sleikt hár Unai Emery, þjálfara Villareal. Eric Alonso/Getty Images

Barcelona vann dramatískan 3-1 sigur á Villareal í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, á laugardagskvöld. Er liðin gengu til búningsherbergja sauð allt upp úr milli stjóra liðanna.

Xavi er tiltölulega nýtekinn við Börsungum og hefur þegar látið til sín taka innan vallar. Eftir sigurinn gegn Villareal virtist hann tilbúinn að láta til sín taka utan vallar er hann ræddi við Unai Emery, þjálfara Villareal.

Þó lokatölur hafi verið 3-1 Barcelona í vil var staðan 1-1 er aðeins þrjár mínútur voru til loka venjulegs leiktíma. Börsungar skoruðu tvívegis á þeim tíma og því sauð eðlilega á Emery er flautað var til leiksloka.

Til að bæta gráu ofan á svart vildu heimamenn fá tvær vítaspyrnur í leiknum en myndbandsdómari leiksins ákvað að aðhafast ekkert eftir að boltinn fór í hönd Gerards Pique, miðvarðar Barcelona, innan vítateigs. 

Þá féll Raúl Albiol, miðvörður Villareal, í teignum eftir viðskipti sín við Eric Garca en aftur var ekkert dæmt.

Samkvæmt fjölmiðlum ytra eiga þeir Emery og Xavi að hafa rifist heiftarlega á leið sinni til búningsherbergja og ku rifrildið hafa orðið svo alvarlegt að lögreglumenn þurftu að stíga inn í og stíga til hliðar.

Eftir leik helgarinnar er Barcelona í 7. sæti La Liga með 23 stig á meðan Villareal er í 12. sæti með 14 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×