Húsnæðinu í Úlfarsárdal er ætlað að vera miðstöð mennta, menningar og íþrótta en mannvirkið í heild er um 18 þúsund fermetrar. Sundlaug og bókasafn deila afgreiðslu en í miðstöðinni er einnig Dalskóli, samrekinn leik- og grunnskóli, ásamt frístundaheimili. Í sumarbyrjun 2022 bætist íþróttahús knattspyrnufélagsins Fram við - og síðar sama ár verður keppnisvöllur utanhúss vígður. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur segir þetta eina stærstu framkvæmd sem borgin hefur ráðist í frá upphafi.

„Og sú langstærsta á þessu sviði. Fyrir mig persónulega sem elst upp í Árbænum þá átti maður því að venjast að það tók áratugi og áratugi ofan að sundlaugin og íþróttahúsið og bókasafnið kæmi. Þannig að það er alveg einstök ánægja sem fylgir því að opna þetta á meðan úlfarsárdalurinn er enn þá að byggjast,“ segir Dagur.
Framkvæmdatíminn er orðinn um sex ár og Dagur segir ljóst að miðstöðin sé langþráð. Bókasafnið í Úlfarsárdal verður sjöunda safn Borgarbókasafnsins en það verður opið á opnunartíma sundlaugarinnar, frá hálf sjö á morgnana til tíu á kvöldin.
Skellti sér í sturtu í morgun
Hin nýja Dalslaug er áttunda almenningssundlaug Reykjavíkur en síðast var ný sundlaug opnuð í Reykjavík árið 1998, Grafarvogslaug. Eftirvænting eftir nýrri laug, og opnun miðstöðvarinnar allrar, ruglaði borgarstjóra örlítið í ríminu í morgun.
„Ég steingleymdi að ég væri að fara í sund að vígja laugina og smellti mér bara í sturtu,“ segir hann.
Þannig fari hann allavega tvisvar í bað í dag. „Það er auðvitað alveg sérstaklega ánægjulegt að mæta alveg tandurhreinn í nýju sundlaugina í Úlfarsárdal,“ segir borgarstjóri.
Dagur segir að ákveðið hafi verið að teygja opnunarhátíðina yfir helgina vegna sóttvarnatakmarkanna. Þannig verði frítt ofan í laugina um helgina og allir velkomnir til að skoða bókasafnið og skólann fyrir eða eftir sundferð. „Þannig þetta verður ein allsherjar hverfis- og borgarhátíð,“ segir Dagur B. Eggertsson að lokum.