Sport

Sundsystur frá Svíþjóð safna að sér verðlaunum á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louise Hansson fagnar á verðlaunapallinum með gull um hálsinn.
Louise Hansson fagnar á verðlaunapallinum með gull um hálsinn. AP/Kamran Jebreili

Það verður væntanlega vel fagnað um jólin hjá Hansson fjölskyldunni í Svíþjóð.

Sænsku sundkonurnar Louise og Sophie Hansson hafa nefnilega verið í miklu stuði á heimsmeistaramótinu í 25 metra laug í Abú Dabí.

Báðar hafa þær unnið fjölda verðlauna á mótinu þar á meðal gull saman með boðssundssveit Svía í 4 x 50 metra fjórsundi. Louise og Sophie unnu einnig brons saman í 4 x 100 metra boðsundi.

Louise vann gull í 100 metra baksundi og brons í 50 metra baksundi. Sophie vann silfur í 100 metra bringusundi og brons í 50 metra bringusundi.

Samtals hafa þær því unnið til átta verðlauna á mótinu, Louise tvö gull og tvö brons en Sophie eitt gull, eitt silfur og tvö brons.

Í gær munaði aðeins nokkrum mínútum á verðlaunum systranna og það hefur væntanlega verið mjög gaman hjá foreldrum og fjölskyldumeðlimun þær mínútur.

Louise er 25 ára og tveimur árum eldri en Sophie. Louise hafði unnið verðlaun áður á heimsmeistaramóti en þetta eru fyrstu verðlaun Sophie á heimsmeistaramótinu í styttri laug.

Hér fyrir neðan má sjá skemmtilegt myndband frá sænska ríkissjónvarpinu af þeim systrum þegar önnur var nýbúin að frá brons um hálsinn en hin að klára það að synda til silfurverðlauna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×