443 greindust smitaðir innanlands í gær og 51 á landamærum. Kári á von á að stærstur hluti sé með ómíkronafbrigði veirunnar en raðgreining liggur ekki fyrir.
„Þetta er bara það sem mátti búast við. Þetta hefur verið að vaxa í veldisvexti undanfarna daga og þetta er að haga sér samkvæmt því sem mátti búast við,“ segir Kári.
Hann á von á að álagið á heilbrigðiskerfið muni aukast hratt.
„Ég hugsa að þetta þýði að eftir viku verði kominn ansi stór hópur inn á spítala.“
Þá telur hann að tölurnar muni halda áfram að hækka næstu daga en engu að síður er hann sannfærður um að heilbrigðiskerfið komi til með að ráða við álagið.
„Við komust í gegnum þetta. Þetta heilbrigðiskerfi okkar er miklu betra en menn gefa því kredit fyrir.“

Kári telur að þær undanþágur sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hafi veitt veitingamönnum í gær hafi verið mistök. Tuttugu manna samkomutakmarkanir tóku gildi í dag og veitti ráðherrann, í framhaldi til undanþága tveggja tónleikahaldara, veitingastöðum undanþágu frá þeim á einum stærsta degi ársins hjá þeim.
„Þetta eru ansi stór mistök. Mistök í þessari stöðu eru býsna alvarlegri heldur en þegar menn eru fótboltaþjálfarar,“ segir Kári. Willum Þór er fyrrverandi knattspyrnuþjálfari.
Kári á von á að ráðherrann átti sig á því að undanþágurnar hafi ekki verið skynsamlegar.
„Ég held að þetta séu byrjunarmistök hjá góðum manni sem er allt í einu orðinn heilbrigðisráðherra. Það var ekkert verra hægt að gera heldur en að gefa undanþágu fyrir vínveitingastaði í dag. Þetta er akkurat sá dagur sem menn safnast saman.“
Fréttin hefur verið uppfærð.