Innlent

Reykja­víkur­borg hafi byggt á­kvörðun á röngum upp­lýsingum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Tilboð Vörðubergs var lægst, að fjárhæð 92.452.054 krónur en Reykjavíkurborg tók næstlægsta tilboðinu sem hljóðaði upp á 136.803.337 krónur.
Tilboð Vörðubergs var lægst, að fjárhæð 92.452.054 krónur en Reykjavíkurborg tók næstlægsta tilboðinu sem hljóðaði upp á 136.803.337 krónur. Vísir/Vilhelm

Kæru­nefnd úr­skurðaði ný­lega að Reykja­víkur­borg bæri að greiða fyrir­tækinu Vörðu­bergi skaða­bætur eftir að hafa hafnað til­boði fyrir­tækisins í gang­stétta­við­gerðir borgarinnar. Reykja­víkur­borg byggði á­kvörðunina á því að meintur eig­andi fyrir­tækisins hafi áður verið dæmdur fyrir skatt­svik.

Reykjavíkurborg auglýsti eftir tilboðum í gangstéttaviðgerðir í apríl á þessu ári. Fyrirtækið Vörðuberg gerði tilboð upp á 92,5 milljónir sem var langlægsta tilboðið sem barst. Borgin ákvað þó ákvað að sniðganga tilboð fyrirtækisins á þeim grundvelli að meintur eigandi hafi áður hlotið dóm fyrir skattsvik. Reykjavíkurborg ákvað því að taka öðru tilboði sem var tæpum fjörutíu milljónum króna hærra en tilboð Vörðubergs.

Reykjavíkurborg bar fyrir sig að höfnun borginnar á tilboðinu mætti rekja til skattlagabrota þáverandi eiganda Vörðubergs. Borginni hafi því verið skylt samkvæmt lögum um opinber innkaup að útiloka fyrirtækið frá útboðinu og hafna tilboðinu.

Borgin byggt ákvörðunina á röngum forsendum

Vörðuberg bar hins vegar fyrir sig að þegar útboðið fór fram hafi eigandinn, sem dæmdur hafði verið fyrir skattsvik, verið búinn að selja hlut sinn í fyrirtækinu. Samkvæmt því hafi forsenda Reykjavíkurborgar fyrir höfnun tilboðs fyrirtækisins verið röng. 

Kærunefnd útboðsmála komst að þeirri niðurstöðu að verktakinn hafi ekki lengur verið eigandi fyrirtækisins þegar útboðið fór fram en hann hafði selt hlut sinn í fyrirtækinu um fimm mánuðum áður en Vörðuberg gerði tilboð í gangstéttaviðgerðirnar. Ákvörðun Reykjavíkurborgar hafi því verið reist á röngum upplýsingum um eignarhald. Kærunefndin komst enn fremur að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg bæri að greiða Vörðubergi skaðabætur og 700.000 krónur í málskostnað.

Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×