Sport

Heimsmeistarinn sagði að búið væri að gengisfella HM og lagði til að því yrði frestað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gerwyn Price vann öruggan sigur á Dirk van Duijvenbode í sextán manna úrslit á HM í pílukasti í gær.
Gerwyn Price vann öruggan sigur á Dirk van Duijvenbode í sextán manna úrslit á HM í pílukasti í gær. getty/Luke Walker

Heimsmeistarinn Gerwyn Price lagði það til að HM í pílukasti yrði frestað vegna fjölda keppenda sem hafa þurft að draga sig úr keppni eftir að hafa greinst með kórónuveiruna.

Þrír sterkir keppendur hafa þurft að hætta keppni eftir að hafa smitast af veirunni: Vincent van Voort, Dave Chisnall og þrefaldi heimsmeistarinn Michael van Gerwen. Sá síðastnefndi sendi mótshöldurum tóninn eftir að hann þurfti að draga sig úr keppni og sagði að ekki væri hugað nógu vel að sóttvörnum í Alexandra höllinni þar sem HM fer fram.

Eftir að Chisnall þurfti að draga sig úr keppni í gær setti Price inn færslu á Instagram þar sem hann sagði það þyrfti að fresta mótinu. „Nú er búið að gengisfella mótið. Ég vil frekar spila við þá bestu til að verða bestur. Mér finnst ömurlegt að þessir leikmenn þurfi að hætta vegna veirunnar,“ skrifaði Price.

Price skýrði svo mál sitt frekar í annarri færslu og dró þá aðeins í land. „Ég hef verið í þeirra sporum svo ég finn til með leikmönnunum sem hafa þurft að hætta. Það fer mikil vinna í að skipuleggja viðburð eins og HM svo kannski er ekki besta hugmyndin að fresta mótinu en ég yrði ekki ósammála ef það yrði gert. Ég ætla núna að fara varlega og í hæfilegri fjarlægð frá öðrum. Farið öll varlega,“ skrifaði Price.

Í gærkvöldi tryggði hann sér sæti í átta manna úrslitum á HM með sigri á Dirk van Duijvenbode. Hollendingurinn vann fyrsta settið en þá hrökk Price heldur betur í gang og vann alla leggi og sett sem eftir voru.

Í átta manna úrslitum mætir Price Michael Smith sem sigraði Jonny Clayton í frábærum leik í gær, 4-3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×