Holmes stofnaði fyrirtækið Theranos árið 2003 þegar hún var aðeins nítján ára gömul. Hún vakti fljótt mikla athygli, hún klæddi sig eins og Steve Jobs og talaði með einkennandi lágri röddu. Og fjöldi fólks heillaðist að henni.
Markmið Holmes var að finna betri og ódýrari leið til að greina hundruð sjúkdóma úr aðeins nokkrum dropum af blóði. Þá átti að vera hægt að greina blóðsýnin með sérstökum tækjum úr smiðju Theranos, sem hægt væri að setja upp í apótekum og tækju mun styttri tíma en að senda blóðsýni á rannsóknarstofur.
Aðferðin var af mörgum talin byltingarkennd og fékk Holmes til liðs við sig fjárfesta, allt frá fjölmiðlamógúlnum Rupert Murdoch yfir í Waltons fjölskylduna sem á og rekur Walmart verslanirnar í Bandaríkjunum, sem vörðu milljörðum í fyrirtækið.
Draumur sem byggður var á sandi
Það sem síðar kom í ljós var að niðurstöður úr blóðsýnagreiningum Theranos voru mjög ónákvæmar og leiddu oft til þess að fólk þurfti að fara í venjulegar blóðprufur í framhaldinu sem Theranos rannsakaði leynilega í venjulegum rannsóknarstofum. Fingurstungan dugði ekki til, þveröfugt við það sem Holmes hélt fram.
Sönnunargögn sem lögð voru fyrir dóminn sýndu jafnframt að Holmes hafi logið til um að hafa samið við stórfyrirtæki á borð við Pfizer og Bandaríkjaher um notkun á tækni hennar.

Þegar fyrirtækið var á hæsta tindi var það metið á níu milljarða dala en það stóð ekki lengi. Árið 2015 kom í ljós, eftir að Wall Street Journal birti röð frétta um blekkingar Holmes, að ekki væri allt sem sýndist. Hún og Ramesh Sunny Balwani, framkvæmdastjóri Theranos og fyrrverandi kærasti hennar, voru árið 2018 ákærð fyrir svik og fyrirtækið leyst upp.
Réttarhöldin yfir Holmes stóðu yfir í nokkra mánuði en hún var að lokum sakfelld fyrir fjóra af ellefu ákæruliðum, þrír þeirra sneru að póstsvikum og eitt að fjársvikum. Hún var sýknuð af fjórum ákæruliðum um svik við almenning en kviðdómendum tókst ekki að komast að sameiginlegri niðurstöðu um þrjá ákæruliðanna. Holmes gæti átt yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsi fyrir hvern ákæruliðanna sem hún var sakfelld fyrir en það er þó talið ólíklegt.