Tölfræðingar Íslenskrar erfðagreiningar telja 1.000 einstaklinga nægilega stórt úrtak til að fá góða mynd af því hve margir hafa í raun og veru smitast af veirunni á Íslandi.
Í blóðsýni má kanna hvort finnist mótefni gegn kjarnapróteini veirunnar. Ef það finnst, hefur einstaklingurinn smitast og bólusetningar eiga ekki að geta ruglað þá niðurstöðu. Innan tveggja til þriggja vikna ætti maður að sjá hvort maður sé kominn með mótefni.
Niðurstöður rannsóknarinnar geta skipt sköpum fyrir framtíð daglegs lífs hér á landi. Kári Stefánsson telur margfalt fleiri hafa smitast en hafa greinst. Sóttvarnalæknir hefur sagt að niðurstöður rannsóknarinnar verði hjálplegar þegar ákvarðanir eru ákveðnar í framhaldinu.
„Menn eru farnir að velta því fyrir sér hvort það sé þannig. Ég tel að það sé helsta ástæðan fyrir því að sóttvarnalæknir sé að standa í þessu átaki, til þess að síðan meta frekari aðgerðir út frá þessum niðurstöðum,“ segir Kristín Eva Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar rannsóknarverkefna.
Þetta er líka persónulegt mál, því margir vita einfaldlega ekki hvort þeir hafi smitast eða ekki.
„Þau eru mjög þakklát að fá þessi boð,“ segir Kristín Eva. „Flestir vilja fá mótefnamælingar og eru mjög spenntir að vita einmitt, sérstaklega þegar það er svona mikið smit í samfélaginu, hvort þeir hafi smitast án þess að verða veikir.“