Innlent

Mennt­skælingar ó­sáttir með af­léttingar

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Menntskælingar bíða eftir því að fá að halda böll.
Menntskælingar bíða eftir því að fá að halda böll. Aðsend

Menntskælingar eru ekki sáttir með nýjar reglur um samkomutakmarkanir enda ómögulegt að halda böll. Aðeins fimmtíu mega koma saman á standandi viðburðum en fimm hundruð mega koma saman þegar setið er í sætum.

Agnar Már Másson forseti Framtíðarinnar, málfunda- og nemendafélags MR, segir í aðsendri grein á Vísi að nýjar reglur leiði í ljós, að stjórnvöld hafi einfaldlega ekki gert ráð fyrir menntaskólaböllum.

Hann segir að framhaldsskólanemum hafi verið illa brugðið þegar nýjar sóttvarnareglur voru kynntar fyrir helgi enda hafi nemendur beðið spenntir eftir því næst sem eðlilegu félagslífi.

„Stjórnvöldum yfirsást að huga að hagsmunum framhaldsskólanema og virtu að vettugi þá staðreynd að félagslíf í öllum menntaskólum landsins hefur verið í skötulíki undanfarin tvö ár. Undanfarna mánuði hafa nemendur þurft að bera grímur í tímum og öll samvera á skólatíma verið mjög takmörkuð,“ segir Agnar Már í greininni.

„Hvað er MR án félagslífs?“

Hann harmar að stjórnvöld hafi ekki gert ráð fyrir félagslífi ungmenna með nýjum sóttvarnareglum enda hafi menntaskólagangan verið þungur róður frá upphafi faraldursins. Á menntaskólaböllum sitji nemendurnir ekki, eðli málsins samkvæmt.

„Meginþorra menntaskælinga er tiltölulega sama um sitjandi viðburði eins og sinfóníu og/eða Bubbatónleika í Hörpu. Þeir völdu flestir framhaldsskóla að stórum hluta til út frá félagslífinu sem í skólanum ríkir,“ segir Agnar Már í greininni.

„Þessi þrjú ár áttu jú að vera með þeim skemmtilegustu í okkar lífi. Hvað er MR án félagslífs annað en þungt nám í gömlum húsakynnum?“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×