Frá þessu segir á vef Veðurstofunnar. Þar segir að reikna megi með minnkandi frosti og að skyggni geti orðið mjög takmarkað um tíma á Suðvesturlandi og því séu gular veðurviðvaranir í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa og Suðurlandi.
„Snýst í suðvestanátt með skúrum eða slydduéljum suðvestanlands síðdegis og hlýnar. Hægara og rofar til A-lands í kvöld, en allhvöss norðaustanátt með snjókomu norðvestan til.
Lægðin hreyfist norðaustur yfir landið í kvöld og nótt, en snýst þá allhvassa norðvestanátt með éljum austan til, en lægir og rofar til fyrir vestan og kólnar.
Fremur hægir vindar og talsvert frost síðdegis á morgun, en suðaustankaldi og fer að snjóa suðvestan til seint um kvöldið. Útlit fyrir vetrarlegt og kalt veður það sem eftir lifir vikunnar.“
Gular viðvaranir:
- Höfuðborgarsvæðið. Suðaustan hvassviðri og snjókoma. 31. jan. kl. 13:00 – 15:00
- Suðurland. Suðaustan hvassviðri og snjókoma. 31. jan. kl. 13:00 – 16:00
- Faxaflói. Suðaustan hvassviðri og snjókoma. 31. jan. kl. 13:00 – 16:00

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Vestlæg eða breytileg átt, 5-13 m/s, en 13-20 A-til fyrri part dags. Víða dálítil él, en þurrt að kalla S- og V-lands fram undir kvöld. Frost 1 til 12 stig, kaldast inn til landsins.
Á miðvikudag: Suðvestlæg átt, 5-10 m/s, en norðaustan 8-15 á Vestfjörðum og víða él, en úrkomulítið A-lands. Frost víða 1 til 12 stig.
Á fimmtudag: Norðan og norðvestan 10-18 m/s og éljagangur, hvassast úti við N-ströndina, en bjart með köflum sunnan heiða. Talsvert frost um land allt.
Á föstudag: Norðvestanstrekkingur og dálítil él NA-til, en gengur í austanhvassviðri og fer að snjóa S- og V-lands um kvöldið. Áfram kalt í veðri.
Á laugardag og sunnudag: Breytilegar áttir og snjókoma eða él víða um land, en dregur smám saman úr frosti.