„Við unnum fyrri hálfleik með sex stigum og ÍR vann seinni hálfleik með fjórum stigum. Þessi leikur vannst ekki á neinu sérstöku. Þeir fengu þrista úr óvæntum áttum fannst mér, í seinni hálfleik náðum við að láta aðra skjóta heldur en Igor Maric,“ sagði Lárus og bætti við að samt vann ÍR seinni hálfleikinn.
Glynn Watson var stórkostlegur í fyrri hálfleik og gerði 27 stig og gaf fjórar stoðsendingar.
„Það var eins og hann gæti ekki klikkað í fyrri hálfleik, ég ætla ekki að segja að hann hafi haldið okkur á floti. ÍR skipti mikið á hindrunum og var ég búinn að ákveða það að þá ætti Watson að vera grimmur.“
Þrátt fyrir að Þór Þorlákshöfn var yfir lengst af í leiknum gafst ÍR aldrei upp og hrósaði Lárus ÍR-ingum fyrir góðan leik.
„ÍR er að spila með miklu sjálfstrausti, þeir sýndu mikla baráttu og létu boltann ganga vel. Það er erfitt að koma á þeirra heimavöll og mæta þeim því þeir eru góðir í körfubolta.“
Lárus var að lokum ánægður með að Igor Maric tókst ekki að koma skoti á körfuna undir lok leiks.