Vegagerðin hefur formlega boðið út vegagerð um Teigsskóg og á vegurinn að vera tilbúinn í október á næsta ári. Samkvæmt útboðsauglýsingu, sem birt var á vef Vegagerðarinnar í morgun, felst verkið í nýbyggingu nærri ellefu kílómetra kafla Vestfjarðavegar um Gufudalssveit, milli Þórisstaða og Hallsteinsness í Þorskafirði, en þetta er sá kafli sem liggur um hinn umdeilda Teigsskóg.

Verkið er boðið út á evrópska efnahagssvæðinu og rennur tilboðsfrestur út þann 23. mars næstkomandi. Þessum verkáfanga skal svo að fullu lokið 15. október 2023.
Sigurþór Guðmundsson, verkefnisstjóri Vestfjarðavegar um Gufudalssveit, gerir ráð fyrir að vinna geti hafist með vorinu, í apríl eða maí. En er ástæða til að ætla að mótmælendur muni freista þess að hindra vegagerðina, í ljósi þess að deilt hefur verið um málið í hartnær tuttugu ár? Býst verkefnisstjórinn við að einhverjir mæti á vinnusvæðið og hlekki sig við jarðýtur?
„Ég vona ekki. Ég veit svo sem ekki hvað kemur til. En ég held nú ekki.
Ég held að það sé búið að fara vel yfir þessi mál. Og við erum í nánu samráði við Náttúrustofu Vestfjarða og vinnum með þeim í þessu verkefni og sveitarfélaginu líka,“ segir Sigurþór Guðmundsson, verkefnisstjóri hjá Vegagerðinni, í viðtali sem birtist í hádegisfréttum Bylgjunnar, og heyra má hér:
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 í síðustu viku um útboðið: