Körfubolti

Leikmaður bar dómara út af vellinum í EuroLeague kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Astou Ndour hjálpaði meiddum dómara af velli þegar hann lenti í vandræðum í leik í Euroleague kvenna í gær.
Astou Ndour hjálpaði meiddum dómara af velli þegar hann lenti í vandræðum í leik í Euroleague kvenna í gær. Fiba.basketball

Spænska landsliðskonan Astou Ndour sýndi mikla íþróttamennsku í EuroLeague kvenna þegar hún var að spila með liði sínu Reyer Venezia frá Ítalíu.

Venezia var þarna að spila við franska liðið Lattes Montpellier og fór leikurinn fram í Frakklandi.

Dómarinn Raul Zamorano Sanchez var í vandræðum eftir að hann meiddist í leiknum. Hann gat ekki stigið í fótinn og ekki haldið áfram.

Meðdómararnir hans voru þær Andrada Csender frá Danmörku og Viola Györgyi frá Noregi.

Ndour kom þá til bjargar ásamt aðstoðarþjálfara ítalska liðsins og bar dómarann af velli eins og sjá má á myndbandinu hér fyrir neðan.

Kayla Bonica Thornton gerði sig líka tilbúna til að hjálpa en það var Ndour sem tók af skarið og hjálpaði dómaranum af velli.

Astou Ndour var annars með 13 stig og 7 fráköst í leiknum og Venezia liðið vann öruggan 22 stiga sigur, 74-52.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×