Í yfirlýsingu IOC segir að rússnesk stjórnvöld hafi brotið ólympíusáttmálann með innrás sinni og að það geri Hvít-Rússar einnig með stuðningi sínum við Rússa.
Þar segir að þó að markmið ólympíuhreyfingarinnar sé að allir geti stundað íþróttir, óháð öllum stjórnmáladeilum, þá sé það ekki hægt að þessu sinni. IOC sé í stöðu sem ekki sé hægt að leysa, því að ef að Rússum og Hvít-Rússum væri leyft að keppa á alþjóðlegum mótum gætu margir Úkraínumenn á sama tíma ekki keppt vegna árásarinnar á þeirra land.
IOC Executive Board recommends no participation of Russian and Belarusian athletes and officialshttps://t.co/XZyLIi11XR
— IOC MEDIA (@iocmedia) February 28, 2022
Þess vegna hvetur IOC nú öll íþróttasambönd til að bjóða ekki Rússum eða Hvít-Rússum þátttöku. Sé þetta ekki hægt vegna lagalegra eða skipulagslegra aðstæðna, vegna skamms fyrirvara, verði jafnframt allt reynt til að íþróttafólk geti ekki keppt undir nafni Rússlands eða Hvíta-Rússlands.
Í þessu sambandi nefnir IOC sérstaklega vetrarólympíumót fatlaðra, sem sett verður í Peking á föstudaginn, og lýsir yfir eindregnum stuðningi við alþjóða ólympíunefnd fatlaðra. Sú nefnd fundar á miðvikudag til að ræða þátttöku Rússa.