Tilboðið kom frá Bergi Verktökum og hljóðar upp á 535,7 milljónir króna. Það er 30 prósentum hærra og 125 milljónum króna yfir áætluðum verktakakostnaði upp á 410,8 milljónir króna.

Jafnframt hafa tilboð í eftirlit með verkinu verið opnuð. Fjögur tilboð bárust í eftirlitsþáttinn, það lægsta frá VBV ehf., Kópavogi, upp á 8.4 milljónir króna. Það reyndist vera 84 prósent af 10 milljóna króna áætlun.
Verkið er hluti af Samgöngusáttmálanum. Hönnun er í höndum VSB verkfræðistofu, Landslags og Úti Inni arkitekta. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í apríl og verði lokið í desember, að því er fram kom í íbúakynningu Garðabæjar í síðasta mánuði.

„Núverandi göngu- og hjólastígur beggja vegna Arnarnesvegar verður lagfærður og lagður í undirgöng undir veginn. Gatnamót yfir undirgöngum verða jafnframt lagfærð, beygjureinum breytt og gönguleiðir uppfærðar.
Hluti af framkvæmdinni er einnig gerð bráðabirgða vega og stíga fyrir umferð akandi, gangandi og hjólandi á framkvæmdatíma. Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Garðabæjar,“ segir í útboðslýsingu en þar segir að verkinu skuli að fullu lokið 31. nóvember 2022.