Héraðsstjórinn Pavlo Kyrylenko segir að spítalinn, sem er staðsettur utarlega í vesturhluta borgarinnar, hafi meira og minna verið lagður í rúst á seinustu dögum en að heilbrigðisstarfsfólk hafi haldið áfram að meðhöndla sjúklinga í kjallaranum. Um er að ræða einn stærsta spítala borgarinnar.
Í færslu sem Kyrylenko birti á Facebook-síðu sinni um klukkan 14:30 að íslenskum tíma hefur hann eftir einum starfsmanni sjúkrahússins að Rússar hafi neytt 400 manns úr nærliggjandi húsum til að koma á spítalann og enginn fái að yfirgefa svæðið. Litlar fregnir hafa borist af aðstæðum á spítalanum síðar í dag.
Yfirvöld í Úkraínu segja að minnst 2.400 almennir borgarar hafi farist frá því að rússneski herinn hóf sprengjuárásir á Mariupol. Margir íbúar reyni nú að lifa af í neðanjarðarbyrgjum.
Orlov sagði í samtali við CNN fyrr í dag að Rússar haldi áfram að rústa borginni og í gær hafi minnst 22 loftför varpað allavega 100 sprengjum á borgina. Hann segir eyðilegginguna vera gríðarlega. Hann bætti við að rússneskir hermenn hafi tekið lækna og sjúklinga í gíslingu á sjúkrahúsinu og kallaði gjörninginn stríðsglæp.
Orlov telur að 350 til 400 þúsund íbúar séu eftir í borginni en um tvö þúsund bílar yfirgáfu hana í dag. Aðstoðarborgarstjórinn bætti við að vatns- og fæðuskortur væri ríkjandi í Mariupol en bílalest með neyðaraðstoð sem átti að koma á sunnudag hafði ekki enn skilað sér síðdegis í dag.