Helena sjálf var með nærrum því þrefalda tvennu en hún skoraði 19 stig, tók 15 fráköst og gaf níu stoðsendingar.
„Viljinn var bara þvílíkt til staðar hjá okkur “, sagði Helena þegar hún var spurð hvað hafi skorið úr um sigurvegara í kvöld.
„Við lentum í smá áfalli á fimmtudaginn þegar við missum Keiru [Robinson] í meiðsli en við vorum bara ótrúlega samheldnar og flottar í kvöld.“

Helena skoraði ekki nema níu stig í undanúrslitunum á móti Njarðvík en endaði með 19 stig í kvöld en öll stigin hennar voru mjög mikilvæg. Hvað breyttist á milli leikja?
„Við erum bara með frábæra leikmenn og aðrir voru að skora á fimmtudaginn. Ég þurfti ekki að skora eins mikið þá. Í kvöld þá þurfti ég að skora aðeins meira og þá fundu þær mig meira í kvöld. Við erum bara með frábært lið og ég er gífurlega stolt af þessum stelpum í dag og ég get ekki lýst því hvað ég er ánægð með þær.“
En hvað gerir svona sigur fyrir liðið upp á loka átökin í deildinni?
„Bara gríðarlega mikið. Við spilum án Keiru sem er okkar aðalleikstjórnandi og vara leikstjórnandinn okkar Jana [Falsdóttir] kemur inn og stendur sig ógeðslega vel. Allir bara stigu upp og gerðu rosalega vel í dag.
Þá var Helena spurð hvort það væri nokkuð að verða þreytt að vinna titla en Helena stígur varla inn á völlinn hér á landi nema að vinna titil.

„Af hverju ætti það að vera þreytt. Svona á þetta að vera. Þetta geggjað gaman. Nú er maður komin með dóttur í stúkuna sem er búin að vera eiginlega spenntari en ég fyrir möguleikanum að vinna bikar. Þetta er bara ógeðslega gaman“, sagði sú besta skælbrosandi.