Innherji

Stjórnarformaður Reita segir seinagang tefja uppbyggingu á 1100 íbúðum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Samkvæmt rammaskipulagi er gert ráð fyrir 160 þúsund fermetrum í nýju byggingarmagni á Kringlusvæðinu.
Samkvæmt rammaskipulagi er gert ráð fyrir 160 þúsund fermetrum í nýju byggingarmagni á Kringlusvæðinu. VÍSIR/VILHELM

Þórarinn V. Þórarinsson, stjórnarformaður Reita fasteignafélags, telur ámælisvert að ekki sé settur meiri kraftur í afgreiðslu skipulagstillagna svo að hægt sé að bregðast við verulegri vöntun á íbúðarhúsnæði. Þetta kom fram í ávarpi Þórarins á aðalfundi Reita.

„Það er mikið áhyggjuefni hversu sein viðbrögð þeirra eru sem fara með ákvarðanir um skipulags- og byggingarmál. Á tímum þar sem fyrir liggur að veruleg vöntun er á íbúðarhúsnæði er ámælisvert að ekki sé settur meiri kraftur í afgreiðslu skipulagstillagna svo hefja megi uppbyggingu,“ sagði Þórarinn.

Þórarinn V. Þórarinsson, stjórnarformaður Reita

Um mitt ár 2018 samþykkti borgarráð Reykjavíkurborgar rammaskipulag fyrir Kringlusvæðið sem gerir ráð fyrir 160 þúsund fermetrum í nýju byggingarmagni. Áður höfðu borgarstjóri og forstjóri Reita undirritað viljayfirlýsingu um stórfellda uppbyggingu á svæðinu. En frá samþykkt rammaskipulagsins hefur „afar lítið þokast í skipulagi Kringlusvæðisins“ að sögn Þórarins.

„Á meðan bíða 1100 íbúðir óbyggðar á besta stað í borginni. Þetta er auðvitað ekki í lagi og við hljótum að vænta þess að borgaryfirvöld sinni skyldum sínum í þessu efni og láti vel mótaða tillögu um uppbyggingu Kringlusvæðisins, þar sem Kringlan sjálf verður í miðju nýs borgarkjarna, fá verðskuldaðan framgang án frekari tafa.“

Árshækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 22,5 prósent í febrúar. Í kynningum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og Samtök atvinnulífsins (SA) útbjuggu fyrir fjárlaganefnd Alþingis var samhljómur um að gera þyrfti grundvallarbreytingu á meðferð skipulagsmála og einfalda regluverki. Skipulagsferlar, eins og þeir eru í dag, kæmu í veg fyrir að byggðar yrðu nægilega margar íbúðir á næstu árum.

Að mati Þórarins verður skipulagning og uppbygging á þróunareignum félagsins umtalsverð uppspretta tekna og hagnaðar á komandi árum. Fyrsta stóra verkefnið á þessu sviði var Orkureiturinn en félagið ákvað að lokum að selja reitinn alveg frá sér til að raungera hagnað og losna frá áhættu að hans sögn.

„Á hinn bóginn er ekki ólíklegt að félagið taki á komandi árum meiri framkvæmdaáhættu í úrvinnslu þróunareigna. Umfang slíkrar þátttöku fer þó eðlilega eftir mati á samhengi áhættu og ávinnings í hverju verkefni,“ sagði Þórarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×