Skoðun

„Kæri stúdent, bíttu á jaxlinn, þetta verður betra"

Brynhildur Þorbjarnardóttir skrifar

Þó svo að mörg fagni styttingu framhaldsskólans standa nýstúdentar á verkfræði- og náttúruvísindasviði sem tóku styttra stúdentspróf höllum fæti. Stytting framhaldsskólans gerir nemendum á framhaldsskólaaldri erfitt fyrir að taka meiri undirbúning fyrir nám í háskóla.

Á árinu tryggðu Röskvuliðar í sviðsráði verkfræði- og náttúruvísindasviðs að inntökuskilyrði á sviðinu yrðu lækkuð í kjölfar ábendinga um að fá nái að uppfylla þau. Þrátt fyrir að Röskvuliðar hafi náð þessu í gegn, eru ennþá gerðar sömu kröfur á nýstúdenta og hafa verið gerðar undanfarin ár, því er álagið of mikið. Stúdentar á fyrsta ári hafa ekki undan við tíð skilaverkefni í öllum námskeiðum og er óformlega sían að sliga stúdenta. Það þarf samspil allra námsstiga til að jafna leikinn og gera stúdentum kleift að sækja nám á sviðinu án þess að setja allt sem heitir félagslíf á hilluna. Það að undirbúningurinn sé ekki nægur í framhaldsskólum landsins fyrir nám á sviðinu er ekki einkamál sviðsins, og það þarf að leiðrétta það.

Verkfræði- og raunvísindanám er mjög krefjandi og stúdentar við sviðið eyða ófáum stundum við bækurnar og í tilraunastofunni. Þessi tími hefur lengst síðustu misseri, þar sem nýstúdentar koma beint úr framhaldsskóla. Þau eru tilbúin að afla sér þekkingar á sviði sem þau hafa áhuga á, en lenda fyrr í „burnouti“ og flosna jafnvel upp úr námi vegna álags. Við þekkjum það flest að námið verður ekki skemmtilegt fyrr en á öðru ári og að stúdentar þurfi bara að þrauka. Þetta er ekki aðlaðandi námsumhverfi eða hvetjandi fyrir fólk sem hefur áhuga á námsleiðum sviðsins. Á sama tíma er tíðrætt að það vanti fólk með okkar menntun í samfélagið en lítið er gert til að aðstoða okkur eða hvetja áfram í náminu. Við þurfum að efla sviðið, á alla vegu, bjóða upp á starfsnám sem vekur áhuga og ástríðu - sýna stúdentum hvað námið nýtist í!

Þar sem flest okkar höfum jú áhuga á stærðfræði, skulum við leggja fyrir eitt lauflétt reiknisdæmi og tökum sem dæmi fyrsta árs 6 ECTS eininga áfanga. Þar er gert ráð fyrir tæpum 13 klukkustundum á viku í vinnu við þann eina áfanga. Þegar dregið er frá fyrirlestratímar, sem eru 3 klukkustundir á viku og dæmatíma sem er 1.5 klukkustund á viku eru eftir 8.5 klukkustundir af tíma sem stúdentar eyða í áfangann á viku. Ég þekki engan stúdent sem fer ekki yfir þau mörk. Margar klukkustundir fara í yfirferð á efninu og eftir er þá verkefnavinnan, en margir þessara áfanga hafa vikuleg skilaverkefni. Þegar litið er á heildarmyndina gerir fullt nám ráð fyrir að stúdentar eyði 1500 til 1800 klukkustundum í námið hvert ár, en fyrir nýstúdenta í verkfræði og raunvísindanámi eru þær jafnvel enn fleiri.

Sviðið hefur boðið upp á upprifjunarnámskeið í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði, en skólaárið gerir þeim erfitt fyrir, þar sem mörg þurfa að vinna langt eftir sumri og komast þar af leiðandi ekki á námskeiðin sem flest eru haldin áður en almennt skólahald byrjar af fullum krafti. Námskeiðin sem haldin eru eftir að skólahald byrjar eru óvinsæl, þar sem mörg geta ekki haldið á spöðunum með fimm 6 ECTS í fanginu. Röskva vill draga þetta vandamál fram í sviðsljósið og fer fram á að þetta verði endurskoðað. Við í Röskvu skorum því á stjórnvöld að endurskoða hvernig námi á grunnskóla- og framhaldsskólastigi er háttað með það að leiðarljósi að styðja við stúdenta sem hallast að námi á verkfræði- og náttúruvísindasviði. Við krefjumst þess að stuðlað sé að því að þau þrífist allan námstímann en ekki einungis þegar út í atvinnulíf er komið. Við eigum meira skilið en að bíta á jaxlinn og vona að næsta ár verði betra.

Höfundur er í 1. sæti fyrir Röskvu á Verkfræði- og náttúruvísindasviði fyrir kosningar til Stúdentaráðs og háskólaráðs sem fara fram á Uglu 23. og 24. mars.




Skoðun

Sjá meira


×