Leitinni er stýrt af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem nýtur liðsinnis björgunarsveitarfólks. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að björgunarsveitirnar hafi ekki haft mikla aðkomu að leitinni seinustu tvær vikur en að einn eða tveir hópar hafi tekið þátt í eftirleit um síðustu helgi við strandlengjuna vestur af höfuðborgarsvæðinu. Áður hefur verið leitað á svipuðum slóðum.
Davíð segir að engin stíf leitaraðgerð hafi nýverið farið fram með aðkomu björgunarsveitanna og næstu skref verði ákveðin af lögreglu.
Hann segir hins vegar að björgunarsveitarfólk hafi verið beðið um að hafa leitina að Sigurði bak við eyrað þegar öðrum verkefnum og æfingum er sinnt.
Þegar lýst var eftir Sigurði þann 21. febrúar kom fram að síðast væri vitað um ferðir hans í vesturbæ Kópavogs þann 17. febrúar. Að sögn lögreglunnar er Sigurður 184 sentimetrar á hæð, grannvaxinn og með grásprengt hár.