Greint var frá því í liðinni viku að Ten Hag hefði farið í atvinnuviðtal hjá enska félaginu en Hollendingurinn er ekki að leitast eftir því að græða fé hjá United samkvæmt breska miðlinum The Mirror.
Ten Hag á að hafa látið Manchester United vita að hann vilji tíma til að endurbyggja liðið frekar en að fá háan launatjékka. Eitthvað sem ætti að benda til þess að knattspyrnustjórinn horfi á starfið til langtíma en sé ekki að leitast eftir feitum starfslokasamning.
Hollendingurinn segist vilja skila titlum til Manchester og koma liðinu aftur í fremstu röð en á að vera steinhissa yfir því að United hafi ekki sett neitt samningstilboð á borðið í kjölfar fundar þeirra á dögunum.
Peningar eru ekkert vandamál hjá þessum 52 ára knattspyrnustjóra Ajax. Ten Hag kemur af auðugri ætt en faðir hans, Hennie Ten Hag, stofnaði fyrirtæki árið 1989 sem í dag er stórt viðskiptaveldi í Hollandi og á meðal annars stærstu fasteignasölu landsins. Erik ten Hag er hluthafi í fyrirtækinu og er hann sagður mjög auðugur eftir bæði farsælan fótbolta- og viðskiptaferil.