Fótbolti

Veit ekki mikið um riðil Hollands á HM: „Fór í frí til Senegal fyrir tveimur árum“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Louis van Gaal er einstakur.
Louis van Gaal er einstakur. EPA-EFE/MAURICE VAN STEEN

Hinn ávallt hreinskilni Louis Van Gaal, landsliðsþjálfari Hollands, ræddi við fjölmiðla þar í landi eftir að dregið var í riðlakeppni HM karla í knattspyrnu í gær. Segja má að hann hafi svarað eins og honum einum er lagið.

Holland leikur í A-riðli sem verður að teljast nokkuð auðveldur miðað við marga aðra riðla mótsins. Heimamenn í Katar fóru sjálfkrafa í A-riðil úr styrkleikaflokki 1 og því ljóst að Hollendingar eru besta lið riðilsins. Svo koma Ekvador og Afríkumeistarar Senegal. Ekki beint dauðariðill þó vanmat sé aldrei gott.

Alla riðlana má sjá í fréttinni hér fyrir neðan.

Van Gaal er hins vegar ekki alveg á því að riðillinn sé eitthvað einstaklega auðveldur. Ástæðan er sú að hann veit nær ekkert um mótherjana.

„Ég veit ekki hvort þetta er góður dráttur. Ég veit ekki mikið um þessar þjóðir. Ég var í fríi í Senegal fyrir tveimur árum. Ég hef aldrei komið til Ekvador og ég hef aldrei séð Katar spila,“ sagði hreinskilinn Van Gaal við blaðamann er hann var spurður út í riðil Hollands á HM.

Holland var ekki á HM í Rússlandi 2018 en hollenska þjóðin vonast til að Van Gaal nái að endurtaka leikinn frá 2014. Þá fór hann með liðið alla leið í undanúrslit þar sem liðið tapaði fyrir Argentínu í vítakeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×