Þetta segir upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Manchester í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu.
Gylfi Þór er til rannsóknar hjá lögreglunni í borginni grunaður um kynferðisbrot gegn ungmenni. Hann var handtekinn á heimili sínu í Manchester 16. júlí síðastliðinn og var færður til yfirheyrslu en síðar sleppt. Hann hefur þó verið í farbanni síðan hann var handtekinn.
Farbannið yfir honum hefur nú verið framlengt í fjórgang, síðast í janúar, en það rennur út á páskadag, 17. apríl. Fram kemur í svari lögreglunnar við fyrirspurn fréttastofu, um hvort einhver ákvörðun verði tekin um næstu skref fyrir páska, að ekki eigi að búast við neinum fréttum af máli hans fyrr en á sunnudag. Gera má þó ráð fyrir að engin svör fáist um málið fyrr en eftir viku, að loknum páskum.
Gylfi hefur undanfarin misseri spilað með enska knattspyrnuliðinu Everton í bresku úrvalsdeildinni í fótbolta. Hann hefur þó ekki leikið einn einasta leik með liðinu á þessu keppnistímabili en Everton gaf það út að leikmaðurinn, sem væri til rannsóknar, myndi ekki spila með liðinu á meðan rannsókn stæði yfir.
Greint var frá því fyrr í dag að Gylfi er meðal þeirra leikmanna sem taldir eru líklegir til að vera á leið frá Everton um leið og samningur hans rennur út í lok leiktíðar.
Gylfi hefur þá ekki heldur spilað með íslenska landsliðinu í knattspyrnu á þessum vetri.