Willum Þór var vægast sagt allt í öllu er BATE Borisov vann 2-1 sigur á FC Gomel í úrvalsdeildinni í Hvíta-Rússlandi. Hann kom BATE yfir eftir tæpan hálftíma leik með marki úr vítaspyrnu. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.
Hann lagði svo upp annað mark BATE svo ekki kom að sök þegar gestirnir minnkuðu muninn í uppbótartíma, lokatölur 2-1. BATE er því áfram á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir 5 leiki.
Glódís Perla Viggósdóttir spilaði allan leikinn er Bayern München vann mikilvægan 4-0 útisigur á Jerva í von um að skáka Wolfsburg í baráttunni um þýska meistaraskjöldinn. Glódís Perla lagði upp síðasta mark Bæjara í leiknum.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom inn af bekk Bæjara á 68. mínútu en markvörðurinn Cecilía Rán Rúnarsdóttir var utan hóps þar sem hún er handarbrotin.
Bayern er sem stendur í 2. sæti með 49 stig, stigi minna en Wolfsburg sem trónir á toppnum með leik til góða þegar Bæjarar eiga aðeins tvo leiki eftir. Sigurinn þýðir að Bayern hefur nú þegar tryggt sér þátttöku í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.
Í Svíþjóð mættust Íslendingaliðin Häcken og Kristianstad. Enginn Íslendingur byrjaði leikinn en alls komur þrír inn á er Häcken vann nokkuð sannfærandi 3-1 sigur. Agla María Albertsdóttir kom inn af bekk Häcken í hálfleik og Diljá Ýr Zomers gerði slíkt hið sama eftir klukkustundarleik.
Amanda Andradóttir kom inn af bekk Kristianstad skömmu síðar en þá var staðan enn 3-0. Gestirnir klóruðu í bakkann undir lok leiks en það dugði ekki til. Heimaliðið hefði getað aukið muninn enn frekar en brenndi af vítaspyrnu í uppbótartíma og lauk leiknum því með 3-1 sigri Häcken.
Þegar fjórar umferðir eru búnar i sænsku úrvalsdeildinni eru Agla María og Diljá Ýr á toppnum með 10 stig á meðan lið Elísabetar Gunnarsdóttur er í 7. sæti með 5 stig.
