Blume sagði frá þessari ákvörðun sinni á Instagram síðu sinni en áður hafði komið fram að hún yrði ekki með á heimsmeistaramótinu í Ungverjalandi í júní. Nú vita menn aðeins meira um hvað er að plaga þessa öflugu 27 ára sundkonu.
Blume hefur unnið tíu gullverðlaun á stórmótum þar á meðal gull í 50 metra skriðsundi á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.
Blume sagði á Instagram að hún treysti sér ekki til að keppa á HM og EM út af stressi.
Danski landsliðsþjálfarinn Stefan Hansen hafði áður sagt frá því að Blume væri bara nýbyrjuð að æfa af fullum krafti á ný eftir að hafa tekið þátt í danskeppninni „Wild with dance“ síðasta haust.
Hann sagði að Blume væri ekki í sínu besta formi i viðtali við heimasíðu danska sundsambandsins. „Svo að Pernille geti undirbúið sig sem best fyrir Ólympíuleikana 2024 í París þá höfðum við tekið þá sameiginlegu ákvörðun að keppa ekki á stórmótunum í ár,“ sagði Stefan Hansen.
Nú er hins vegar komið fram í dagsljósið að ástæður þess að Blume er ekki með eru ekki síður andlegar og glíma hennar við kvíða og stress.
Blume vann bronsverðlaun í 50 metra skriðsundi á síðustu Ólympíuleikum sem voru í Tókýó síðasta haust en hafði nokkrum mánuðum áður unnið silfur á Evrópumeistaramótinu í sömu grein.
Hún hefur alls unnið 27 verðlaun á stórmótum í 25 og 50 metra laug þar af tíu gull, fimm silfur og tólf brons.