Körfubolti

Valsmenn geta orðið fyrstir til að sópa báðum meisturum út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Callum Reese Lawson varð Íslandsmeistari með Þór i fyrra en spilar nú með Valsliðinu.
Callum Reese Lawson varð Íslandsmeistari með Þór i fyrra en spilar nú með Valsliðinu. Vísir/Bára Dröfn

Valsliðið er aðeins einum sigri frá sæti í úrslitaeinvígi Subway deildar karla í körfubolta eftir sigra í tveimur fyrstu leikjum sínum á móti Þór úr Þorlákshöfn.

Valsmenn unnu fimm stiga sigur í framlengdum fyrsta leik í Þorlákshöfn (89-84) og fylgdu því síðan eftir með sannfærandi tólf stiga sigri í síðasta leik á Hlíðarenda (87-75).

Íslandsmeistarar Þórs þurfa því að berjast fyrir lífi sínu í Icelandic Glacial-höllinni í kvöld því tap þýðir sumarfrí. Liðið sem skoraði 98 stig í leik í deildarkeppninni í vetur er aðeins með 79,5 stig í leik í fyrstu tveimur leikjunum í einvíginu á móti Val.

Leikurinn hefst klukkan 20.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Körfuboltakvöld byrjar upphitun klukkan 19.45 og gerir síðan leikinn upp á eftir.

Valsmenn eiga möguleika á að afreka það í kvöld sem engu liði hefur tekist áður.

Valsmenn hafa nefnilega þegar sópað út bikarmeisturum Stjörnunnar (3-0 í átta liða úrslitunum) og geta nú sópað út ríkjandi Íslandsmeisturum Þórs.

Takist Valsmönnum að vinna leikinn í kvöld verða þeir fyrstir í sögunni til að sópa út bæði Íslands- og bikarmeisturum í sömu úrslitakeppni.

  • Ríkjandi Íslandsmeistarar sem hefur verið sópað úr úrslitakeppni árið eftir:
  • KR 2021* (0-3 á móti Keflavík í undanúrslitum)
  • Snæfell 2011 (0-3 á móti Stjörnunni í undanúrslitum)
  • Keflavík 2009 (0-3 á móti KR í undanúrslitum)
  • Njarðvík 2003 (0-3 á móti Keflavík í undanúrslitum)
  • KR 2001 (0-3 á móti Njarðvík í undanúrslitum)
  • Grindavík 1997 (0-3 á móti Keflavík í lokaúrslitum)
  • Keflavík 1990 (0-3 á móti KR í undanúrslitum)
  • * KR vann Íslandsmeistaratitilinn 2019 en enginn Íslandsmeistari var krýndur 2020 vegna COVID-19




Fleiri fréttir

Sjá meira


×