Lögregla hefur til rannsóknar níðstöng með hestshaus sem komið var upp við Skrauthóla á föstudaginn. Hjón sem búa á Skrauthólum töldu til að byrja með að um væri að ræða hótun í þeirra garð eftir erfið orðaskipti við nágranna sína hjá Sólsetrinu.
Nafnlaus ábending um helgina sneri dæminu á hvolf. Hjónin segja að níðstönginni hafi verið beint að Sólsetrinu vegna meints andlegs ofbeldis og kynferðislegs ofbeldis sem eigi að hafa átt sér stað hjá Sóletrinu.
„Það er enginn grunnur, það er enginn sannleikur bak við þessi orð,“ sagði Linda Mjöll Stefánsdóttir, stofnandi Sólsetursins. Í Sólsetrinu fara fram óhefðbundnar athafnir á borð við kakó-, dans- og tantraviðburði.
Í tilkynningu MAST segir að aðkoma Matvælastofnunar að rannsókn lögreglu hafi eingöngu miðað að því að kanna hvort vísbendingar væru um að hesturinn hefði verið aflífaður með ólögmætum hætti.
„Farið var með hausinn í rannsókn á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum á Keldum. Niðurstaða rannsóknarinnar bendir til þess að hesturinn hafi verið aflífaður á mannúðlegan hátt, með skoti eða boltabyssu í hausinn,“ segir í tilkynningu MAST.
Aðkomu Matvælastofnunar að rannsókninni hvað dýravelferð varðar er lokið.