Sapega er 24 ára gömul. Hún var um borð í flugvél Ryanair sem var á leið frá Aþenu í Grikklandi til Vilníusar í Litháen þegar hvítrússnesk flugmálayfirvöld skipuðu vélinni að lenda í Minsk. Báru þau fyrir sig sprengjuhótun sem reyndist uppspuni. Sapega og Prótasevtis voru handtekin þegar vélin lenti. Vestræn ríki fordæmdu aðfarir Hvítrússa og beittu þá hertum refsiaðgerðum í kjölfarið.
Sviatlana Tsikhanouskaja, leiðtogi hvítrússnesku stjórnarandstöðunnar sem er í útlegð, harmar fangelsisdóminn yfir Sapega. „Enginn ætti að þjást undir einræðisríki,“ sagði hún á Twitter í dag.
Sapega er rússneskur ríkisborgari. Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlarstjórnar, sagði að Sapega fengi aðstoð en neitaði að fella dóma um hvort að dómurinn yfir henni væri réttlátur.
Enn hefur ekki verið rétta yfir Prótasevits. Reuters-fréttastofan segir ekki ljóst hversu langt rannsókn hvítrússneskra yfirvalda á honum sé komin. Prótasevits flúði landið árið 2019 en hann tók meðal annars þátt í að skipuleggja fjöldamótmæli í heimalandinu eftir kosningar árið 2020 þar sem Alexander Lúkasjenka forseti lýsti sjálfan sig sigurvegara þrátt fyrir ásakanir um stórfelld svik.