Körfubolti

Slæmar fréttir fyrir Stólana: „Þreyttara“ liðið hefur alltaf tapað í oddaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stólarnir hafa verið nálægt sigri í fyrstu tveimur leikjunum á Hlíðarenda en fá þriðja tækifærið í kvöld.
Stólarnir hafa verið nálægt sigri í fyrstu tveimur leikjunum á Hlíðarenda en fá þriðja tækifærið í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Það hefur reynt á leikmenn Vals og Tindastóls síðustu vikurnar enda bæði lið nú komin alla leið í hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Liðin sem mætast á Hlíðarenda í kvöld hafa þó ekki leikið nærri því eins marga leiki í þessari úrslitakeppni.

Valsmenn sópuðu bæði Stjörnunni og Þór úr Þorlákshöfn út úr úrslitakeppninni á leið sinni í lokaúrslitum og ná því næstum því að spila jafnmarga leiki í úrslitaeinvíginu (5) og samanlagt í átta liða og undanúrslitum (6).

Aðra sögu er að segja af Tindatólsmönnum sem fóru í oddaleik á móti Keflavík í átta liða úrslitunum og þurftu síðan fjóra leiki til að slá út deildarmeistara Njarðvíkur. Stólarnir hafa þannig spilað þremur leikjum meira en Valsmenn í úrslitakeppninni.

Þegar litið er á sögu oddaleikja í lokaúrslitum má sjá skýra fylgni með því að spila færri leiki og að vinna úrslitaleikinn um titilinn.

Í öll sex skiptin þar sem annað liðið hefur spilað færri leiki í úrslitakeppni fram að oddaleiknum hefur það sama lið fagnað sigri í þessum hreina úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

Lið ÍR 2019, Grindavíkur 2017, Stjörnunnar 2013, Grindavíkur 2009, Keflavíkur 1991 og Hauka 1984 spiluðu öll fleiri leiki en mótherji sinn og þau töpuðu líka öll oddaleiknum.

Úrslitaleikur Vals og Tindastóls hefst klukkan 20.15 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Subway Körfuboltakvölds hefst klukkan 19.15.

  • Lið sem hafa spilað fleiri leiki í úrslitakeppni fram að oddaleik:
  • Haukar 1984 (5 leikir á móti 4) Silfur (Njarðvík Íslandsmeistari)
  • Keflavík 1991 (7 leikir á móti 6) Silfur (Njarðvík)
  • Grindavík 2009 (10 leikir á móti 9) Silfur (KR)
  • Stjarnan 2013 (11 leikir á móti 10) Silfur (Grindavík)
  • Grindavík 2017 (12 leikir á móti 11) Silfur (KR)
  • ÍR 2019 (14 leikir á móti 11) Silfur (KR)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×