Búist er við suðvestan þremur til tíu metrum á sekúndu og súld eða rigningu víða um land. Bjart með köflum og stöku síðdegisskúrir fyrir austan. Hiti á landinu verður sjö til sautján stig og hlýjast austanlands.
Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það lægi heldur á laugardag og rofar til, en á hvítasunnudag snúist líklega í suðaustanátt með talsverðri rigningu sunnan- og vestanlands og hlýnandi veðri.
Annan í hvítasunnu styttir væntanlega upp með þurrki og hlýindum í flestum landshlutum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Sunnan og suðvestan 5-10 m/s og dálítil rigning eða súld með köflum, en yfirleitt þurrt austanlands. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast austanlands.
Á föstudag: Suðvestan 5-13 m/s, hassast syðst og rigning með köflum, en úrkomumeira um kvöldið. Hiti 6 til 13 stig, hlýjast á Austurlandi.
Á laugardag: Norðvestlæg átt, 5-10 m/s og skýjað með köflum, en hvassara og dálítil væta norðaustan til framan af degi. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast suðaustanlands.
Á sunnudag (hvítasunnudagur): Ákveðin suðaustlæg átt og vætusamt, en hægara og yfirleitt þurrt norðaustan til. Hlýnandi veður.
Á mánudag (annar í hvítasunnu) og þriðjudag: Útlit fyrir stífa austan- og suðaustanátt, víða bjart og hlýtt veður.